SR Vélaverkstæði á Siglufirði. byggir á traustum grunni og fyrirtækið er orðið yfir 70 ára. Fyrirtækið var stofnað árið 1935 og var lengst af sjálfstæð rekstareining innan Síldarverksmiðju Ríkisins, síðar SR-Mjöls,  en er nú í eigu starfsmanna verkstæðisins og nokkurra annarra aðila.  Auk vélaverkstæðis rekur fyrirtækið nú einnig byggingavöruverslun, SR Byggingarvörur.

Á þessum árum höfum við öðlast gríðarlega reynslu í hverskyns málmsmíði og viðhaldi. Á verkstæðinu starfa um 15 manns og er þar að finna vélvirkja, rennismiði og stálsmiði svo nokkuð sé nefnt.

Meðal verkefna okkar má nefna uppbyggingu og nýbyggingar á loðnuverksmiðjum, viðhald og nýsmíði í skipum og fiskvinnslum, auk margra annarra ólíkra verkefna.

Ryðfrítt stál er okkar sérfag og við höfum smíðað hundruðir snigla, varmaskipta og ýmiskonar búnaðar þar sem þörf er á ryðfríu stáli. Sniglana frá okkur má finna víða á Íslandi og annarsstaðar í heiminum.

Við höfum ávallt lagt áherslu á vönduð vinnubrögð og viðskiptavinir okkar hafa notið þess. Meðal nýlegra viðskiptavina okkar má nefna MAREL og BECHTEL.

Samgöngur til og frá Siglufirði byggjast á daglegum ferðum og því er afgreiðsla á framleiðslu okkar að jafnaði skjót og örugg.
Hjá okkur getur þu einnig fengið tækniaðstoð og vinnu við teiknun og hönnun.

Leitaðu til okkar og kynntu þér hvað við getum gert fyrir þig!

 

Aðstaða og vélakostur

Samhliða vélaverkstæðinu rekur SRV byggingavöruverslun og lager.
Vélaverkstæðið er vel tækjum búið. Það skiptist í renniverkstæði og plötusmiðju.

Sérstaklega vekjum við athygli á MEUSER rennibekk sem getur rennt hluti sem eru allt að ¢1660mm í þvermál ef um stutta hluti er að ræða en ¢1240mm ef eum lengri hluti er að ræða. Lengd milli odda er 5,5m. Þyngd hluta má vera allt að 26000 kg.

Tæki sem nefnist T-DRILL býr til suðustúta á rör, sem koma í stað T-stykkja. Það sparar því bæði kaup á T-stykkjum, hugsanlega minnkunum, og vinnu við suðu. Tækið ræður við rör að utanmáli ¢42 til ¢406mm og getur gert stúta allt að DN150. Þetta tæki hefur verið notað við lagnavinnu á ryðfríum lögnum á Siglufirði, Raufarhhöfn, Þórshöfn, Seyðisfirði, Vestmannaeyjum og í Helguvík.

Plötuvinnslutæki eru stór og öflug. Þar má nefna pltöuklippur 16x3100mm, vals sem getur forbeygt 10x3100mm, beygjuvél 3100mm 200tn og plötugatara 40tn ¢105mm.